13.8.12

Þríþrautin 1. september

Hin árlega þríþraut Vasa2000 fer fram þann 1. september næstkomandi. Líkt og venjulega hefst keppnin með sundi í Bolungarvík og verða syntir 700 m.  Síðan verður hjólað til Ísafjarðar og að öllum líkindum verður farin sama leið og í fyrra, þ.e.a.s. í gegnum göngin en ekki eftir gamla Óshlíðarveginum. Það kemur til af því að malbikið er orðið ansi höggvið og holótt á Óshlíðinni, þannig að hætt er við að mörg dekk myndu springa á leiðinni. Eins eru göngin mun öruggari leið, einkum í votviðri eins og við fengum að njóta í fyrra. Af þessu leiðir að hjólaleggurinn styttist úr hinum hefðbundnu 17 km niður í um 15 km. Keppninni lýkur svo með 7 km hlaupi á Ísafirði.

Að venju verður synt í riðlum og ekki ræst úr í hjólreiðar fyrr en allir hafa lokið sundinu. Rásröðin í hjólreiðunum ræðst af sundtímanum, þannig að fljótasti sundmaðurinn fer fyrstur af stað og svo koll af kolli, þannig að tímamunur úr sundinu haldi sér. Á þennan hátt geta áhorfendur og þátttakendur alltaf séð rétta stöðu í keppninni. Ekkert hlé verður á milli hjólreiða og hlaups. Skiptisvæði og endamark verður framan við Landsbankann á Ísafirði.

Hægt er að skrá bæði einstaklinga og lið til keppni. Aldursflokkar í einstaklingskeppninni eru þannig að hjá hvoru kyni er keppt í flokkum 13-15 ára, 16-39 ára, 40-49 ára og 50 +.

Liðakeppni fer þannig fram að einn einstaklingur syndir, annar hjólar og sá þriðji hleypur. Lið er hægt að mynda óháð aldri eða kyni. ATH að sundmaður í liðakeppni getur einnig tekið þátt í einstaklingskeppninni.

Skráning átti að fara fram á vefnum hlaup.com. Honum hefur nú verið lokað eins og kunnugt er, þannig að tekið verður á móti skráningum í síma 897-6753 og 862-3291.

Þríþrautin 2012 verður haldin í samvinnu við Verslunar-Geira/Shell skálann í Bolungarvík.

Nánari upplýsingar munu birtast hér á vefnum þegar nær dregur.



No comments:

Post a Comment