26.8.13

Þríþrautin 2013

Hin árlega þríþraut Vasa2000 fer fram þann 7. september næstkomandi. Líkt og venjulega hefst keppnin með sundi í Bolungarvík og verða syntir 700 m.  Síðan verður hjólað um Bolungarvíkurgöngin til Ísafjarðar, u.þ.b. 15 km leið og svo lýkur keppninni með 7 km hlaupi á Ísafirði.

Sundið hefst kl 11:00. Að venju verður synt í riðlum (ef keppendur verða fleiri en rúmast í lauginni í einu) og ekki ræst úr í hjólreiðar fyrr en allir hafa lokið sundinu. Rásröðin í hjólreiðunum ræðst af sundtímanum, þannig að fljótasti sundmaðurinn fer fyrstur af stað og svo koll af kolli, þannig að tímamunur úr sundinu haldi sér. Á þennan hátt geta áhorfendur og þátttakendur alltaf séð rétta stöðu í keppninni. Ekkert hlé verður á milli hjólreiða og hlaups. Skiptisvæði og endamark verður framan við Landsbankann á Ísafirði.

Hægt er að skrá bæði einstaklinga og lið til keppni. Aldursflokkar í einstaklingskeppninni eru þannig að hjá hvoru kyni er keppt í flokkum 13-15 ára, 16-39 ára, 40-49 ára og 50 +.

Liðakeppni fer þannig fram að einn einstaklingur syndir, annar hjólar og sá þriðji hleypur. Lið er hægt að mynda óháð aldri og kyni, þannig að fyrirtæki, vinahópar, kórar og saumaklúbbar geta skráð sitt fólk til leiks . ATH að sundmaður í liðakeppni getur einnig tekið þátt í einstaklingskeppninni.

Skráning og nánari upplýsingar er í símum 897-6753 og 862-3291. Einnig verða nánari upplýsingar birtar hér á vefnum þegar nær dregur.

Ekki þarf að greiða fyrir þátttöku í þríþraut Vasa2000. Aðal styrktaraðilar mótsins eru Orkubú Vestfjarða, Gamla bakaríið og Ölgerðin.