30.8.12

Upplýsingar fyrir þríþrautina

Nú líður óðum að þríþrautinni og því rétt að fara yfir helstu minnispunkta fyrir þátttakendur.

Almennt:
Keppendur taka þátt í mótinu á eigin ábyrgð og ber að virða almennar umferðarreglur. Munið að það er skylda að hafa hjálm í hjólreiðunum. Hjálmlausum verður vísað frá keppni. 

Sund:
Sundið fer fram í sundlauginni í Bolungarvík og hefst kl. 10:00. ATH að sundlaugin verður opnuð upp úr kl. 09:00 fyrir þá sem vilja hita upp og fínpússa tæknina. Vegalengdin er 700 m, eða 42 ferðir. Synt verður í riðlum, og miðað við stöðu skráninga nú að kvöldi föstudags verða riðlarnir svona:

Fyrsti riðill, start kl. 10:00
Hákon Jónsson
Róbert Hafsteinsson
Guðbjörg Rós Sigurðardóttir
Hansína Gunnarsdóttir
Rannveig Halldórsdóttir
Margrét Halldórsdóttir

Annar riðill, start kl. u.þ.b. 10:15
Óskar Ármannsson
Einar Ágúst Yngvason
Jóhann D. Svansson
Bjarni Pétursson
Davíð Björn Kjartansson
Clasina Jansen

Þriðji riðill, start kl. u.þ.b. 10:30
Kristbjörn Róbert Sigurjónsson
Albert Högnason
Sigurður Þórðarson
Helgi Sigmundsson
Hreinn Róbert Jónsson

Athugið að tímasetningar geta hnikast eitthvað til og eins gæti riðlaskipan breyst ef fleiri skráningar berast á endasprettinum.

Allir riðlar verða kláraðir og síðan verður gert stutt hlé áður en ræst verður út í hjólreiðarnar.

Hjólreiðar:
Mótshaldarar aðstoða við flutning á hjólum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur ef á þarf að halda. Þeir sem þurfa að nota þá þjónustu eru beðnir að mæta með hjólin sín á bílastæðið við Landsbankann á Ísafirði kl. 8:45 að morgni laugardags.

Miðað við stöðu skráninga í dag er gert ráð fyrir því að ræst verði í hjóreiðar um eða uppúr kl. 11. Ræst verður í Aðalstræti, til móts við Íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungarvík. Hjólaður verður einn hringur um Bolungarvík áður en haldið verður út úr bænum. Síðan verður farið um Bolungaravíkurgöngin til Hnífsdals og svo áfram sem leið liggur til Ísafjarðar. Þegar komið er til Ísafjarðar er haldið niður Fjarðarstræti alla leið að Pólgötu. Á hluta þessarar leiðar verður farið á móti einstefnu, en brautarverðir og lögregla munu gæta öryggis keppenda eins og kostur er. Loks er beygt inn í Pollgötu og hjólað yfir á skiptisvæðið við Landsbankann.


Munið: Það er skylda að vera með hjálm í hjólreiðunum. Einnig er mælst til þess að fólk hafi blikkljós á hjólum sínum á meðan farið er í gegnum göngin.

Ekki hefur verið amast við reki (drafting) í þessari þraut í gegnum tíðina og verður það ekki heldur gert nú. Keppendur eru þó minntir á að gæta varkárni við slíkt, enda er árekstrahætta nokkur þegar rek er ástundað.

Hlaup
Skiptisvæðið á milli hjólreiða og hlaups er á bílastæðinu framan við Landsbankann á Ísafirði.  Þeir sem eru í liðakeppni verða að "klukka" næsta mann inni í sérstökkum skiptireit þar á planinu. Frá bílastæðinu er hlaupið út í Pollgötu og svo eftir Skutulsfjarðarbraut allt inn að Árholti (fyrri beygjan inn í Holtahverfið). Þar er snúið við og hlaupið til baka. Þegar komið er í hringtorgið á bakaleiðinni á ekki að fara niður Pollgötuna aftur, heldur niður Hafnarstræti. Markið er framan við Landsbankann.



Verðlaunaafhending verður í aðstöðu HSV á lofti Sundhallarinnar á Ísafirði strax að keppni lokinni.

Styrktaraðilar Þríþrautarinnar eru:

Verslunar Geiri/Shellskálinn í Bolungarík, Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Gamla bakaríið.


13.8.12

Þríþrautin 1. september

Hin árlega þríþraut Vasa2000 fer fram þann 1. september næstkomandi. Líkt og venjulega hefst keppnin með sundi í Bolungarvík og verða syntir 700 m.  Síðan verður hjólað til Ísafjarðar og að öllum líkindum verður farin sama leið og í fyrra, þ.e.a.s. í gegnum göngin en ekki eftir gamla Óshlíðarveginum. Það kemur til af því að malbikið er orðið ansi höggvið og holótt á Óshlíðinni, þannig að hætt er við að mörg dekk myndu springa á leiðinni. Eins eru göngin mun öruggari leið, einkum í votviðri eins og við fengum að njóta í fyrra. Af þessu leiðir að hjólaleggurinn styttist úr hinum hefðbundnu 17 km niður í um 15 km. Keppninni lýkur svo með 7 km hlaupi á Ísafirði.

Að venju verður synt í riðlum og ekki ræst úr í hjólreiðar fyrr en allir hafa lokið sundinu. Rásröðin í hjólreiðunum ræðst af sundtímanum, þannig að fljótasti sundmaðurinn fer fyrstur af stað og svo koll af kolli, þannig að tímamunur úr sundinu haldi sér. Á þennan hátt geta áhorfendur og þátttakendur alltaf séð rétta stöðu í keppninni. Ekkert hlé verður á milli hjólreiða og hlaups. Skiptisvæði og endamark verður framan við Landsbankann á Ísafirði.

Hægt er að skrá bæði einstaklinga og lið til keppni. Aldursflokkar í einstaklingskeppninni eru þannig að hjá hvoru kyni er keppt í flokkum 13-15 ára, 16-39 ára, 40-49 ára og 50 +.

Liðakeppni fer þannig fram að einn einstaklingur syndir, annar hjólar og sá þriðji hleypur. Lið er hægt að mynda óháð aldri eða kyni. ATH að sundmaður í liðakeppni getur einnig tekið þátt í einstaklingskeppninni.

Skráning átti að fara fram á vefnum hlaup.com. Honum hefur nú verið lokað eins og kunnugt er, þannig að tekið verður á móti skráningum í síma 897-6753 og 862-3291.

Þríþrautin 2012 verður haldin í samvinnu við Verslunar-Geira/Shell skálann í Bolungarvík.

Nánari upplýsingar munu birtast hér á vefnum þegar nær dregur.